Frábær saga

Anna Guðríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSu, deildi með okkur eftirfarandi sögu/æfingu. Sagan/æfingin er áhrifarík, sérstaklega þegar horft er á baráttuna gegn einelti, og nokkrir kennarar hafa nú þegar komið boðskapnum á framfæri sem þarna kemur fram.


Sagan er svona:

,,Kennari í New York var að kenna bekknum um einelti og lét þau framkvæma smá æfingu. Hún fékk börnunum pappírsbút og sagði þeim að hnoða og kuðla og trampa svo á kuðlinu… og skemma eins og þau gætu, bara ekki að rífa niður.

Svo lét hún börnin breiða úr pappírnum og prófa að slétta krumpurnar, en ekki síst, virða fyrir sér hvernig þau hefðu skemmt pappírinn og gera sér grein fyrir hvað hann var orðinn óhreinn.

Síðan sagði kennarinn börnunum að biðja pappírinn afsökunar. Hversu mikið sem börnin báðu pappírinn afsökunar og reyndu að laga það sem þau hefðu krumpað og óhreinkað, þá hurfu skemmdirnar ekki.

Kennarinn fékk börnin til að ræða og skilja að hvað sem þau reyndu eða vildu slétta og laga það sem þau hefðu gert við pappírinn, myndi aldrei lagast og búið væri að skemma pappírinn varanlega. Þetta væri einmitt það sem gerðist þegar einelti væri beitt gegn öðrum. Hversu oft sem gerandinn bæði fórnarlambið afsökunar, þá væru örin komin til að vera og fylgja fórnarlömbunum allt þeirra líf. Upplitið á börnunum í bekknum sagði kennaranum að hún hafði hitt í mark.“

Hitt í mark
Æfingin hitti líka í mark hjá þeim börnum sem prófuðu hana í Vallaskóla. Þeir kennarar sem fóru í gegnum æfinguna mæla með verkefninu, ekki spurning. Æfingin er einföld í framkvæmd en boðskapurinn er áhrifamikill.

Á myndinni hér til hliðar má sjá nokkrar krumpaðar pappírsfígúrur eftir æfinguna í einum af 6. bekkjunum. Þetta er áminning til okkar allra um að vanda sig í samskiptum. Plakatið er einnig táknrænt en það er hluti af vinnu yngsta stigs með dyggð septembermánaðar í Vallaskóla – sem var vináttan! – en þetta plakat er gjöf eins 1. bekkjarins til vinabekkjar síns í 6. bekk.

Hér má einnig sjá nokkrar myndir til viðbótar af kærleiksplakötum, sem er hins vegar hluti af vinnu miðstigsins með dyggð nóvembermánaðar, sem er kærleikurinn!