Forvarnadagurinn í Sveitarfélaginu Árborg var haldinn miðvikudaginn 2. október
Forvarnadagurinn kallar á aðkomu nemenda í 9. bekk í öllum grunnskólum landsins. Dagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Landlæknisembættið, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Bandalag íslenskra skáta.
Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá vímuefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.
Líkt og undanfarin ár var 9. bekkingum í Sveitarfélaginu Árborg boðið upp á sameiginlega dagskrá, sem unnin er í samstarfi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóla, Vallaskóla, Umf. Selfoss og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz.
Markmið með sameiginlegri dagskrá er að standa fyrir metnaðarfullum viðburði á forvarnadeginum, að hugsa heildstætt í tómstunda- og skólastarfi og efna til hópeflingar og samstöðu meðal ungmenna í sveitarfélaginu. Nemendur sem taka þátt eru um 150 talsins.
Eftirfarandi 6 stöðvar voru í boði fyrir nemendur:
- Zelsiuz – mannréttindi og lýðræði, umsjón Magnús Sigurjón Guðmundsson
- Sigtúnsgarður – kynning á Björgunarfélagi Árborgar, umsjón Jóhann Valgeir Helgason.
- World Class – kynning á DWC, umsjón Nadía Björt Hafsteinsdóttir.
- Kjallari Vallaskóla (gengið inn um aðalinngang) – fræðsla um skaðsemi vímuefna o.fl. í umsjá lögreglu.
- Íþróttahús Vallaskóla – kynning á Cross fit Selfoss, umsjón Árni Steinarsson.
- Anddyri Vallaskóla – verkefnavinna tengd forvarnardeginum.
Dagurinn var vel heppnaður í alla staði og almenn ánægja með framtakið.