Foreldrafræðsla/kakófundur

Í dag, miðvikudaginn 29. nóvember, stendur forvarnarteymi Árborgar, SAMBORG (félag foreldrafélaga í Árborgar) og grunnskólarnir hér í sveitarfélaginu í samstarfi við lögreglu og félagsþjónustu fyrir svokölluðum Kakófundi í Sunnulækjarskóla. Fræðslan hefst kl. 19:30 og er áætlað að dagskránni verði lokið um kl. 21:30. Fyrirlesarar verða eftirfarandi:

Magnús Stefánsson – forvarnarfræðari hjá forvarnarfræðslu Magga Stef/Marita

Eyjólfur Örn Jónsson – Sálfræðingur og sérfræðingur í net- og tölvufíkn

Hermundur Guðsteinsson – lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurlandi

Anný Ingimarsdóttir – Verkefnisstjóri barnaverndar í Sveitarfélaginu Árborg

Dagana 28. og 29. nóvember verða þeir Magnús og Eyjólfur með fræðslu í bekkjum í grunnskólum sveitarfélagsins. Magnús heimsækir 8. og 9. bekk og ræður um vímuefni og áhættuhegðun. Eyjólfur heimsækir hinsvegar 4. og 7. bekk og ræðir um net- og tölvufíkn.

 

Yfirskrift erindis hans Magnúsar fyrir foreldra er: „Hvenær er besti tími dags til þess að ala upp barn?“ Skilaboðin frá honum eru eftirfarandi:

Forvarnarfræðsla Magga Stef verður með fræðslustund í skólanum ykkar þar sem við finnum svar við þessari spurningu, ásamt því að skoða:

  • Uppeldistengd málefni
  • Gildi, hefðir og venjur
  • Hvernig við styrkjum tilfinningagreind barna
  • Hvernig við styrkjum sjálfstraust barna
  • Kannabisplöntuna (hass/gras/weed/vax/olía) og skaðleg áhrif af neyslu.

Einnig verða sýnd helstu einkenni fíkniefnaneyslu og hvernig er gott að bregðast við ef grunur um neyslu kemur upp.

Frá Eyjólfi koma eftirfarandi skilaboð:

Um er að ræða fyrirlestur um hættur netsins með sérstaka áherslu á svokallaða ,,netfíkn“ en rannsóknir benda til að sirka 12% reglulegra netnotenda eigi á hættu að ánetjast notkun sinni. Börn og unglingar eru sérstaklega útsett fyrir þessum vanda og því mikilvægt að foreldrar skilji vandann og viti hvað best sé að gera í málinu. Nokkuð ljóst er að netið sé komið til að vera og því þýðir lítið að loka augunum fyrir því að þar geta leynst hættur eins og annarsstaðar. Við sendum börnin okkar ekki út í umferðina án þess að hafa kennt þeim umferðarreglurnar en við opnum oft heim netsins fyrir þeim án þess að skilja hann almennilega sjálf. Með réttri vitneskju og nálgun eiga allir að geta notið netsins og alls sem að það hefur upp á að bjóða án vandkvæða.

Anný og Hermundur fara yfir hvernig þau málefni sem Magnús og Eyjólfur fara yfir hafa áhrif á þau mál sem koma inn á borð barnaverndar og lögreglu.

Ekki missa af þessum frábæra kakófundi!

Foreldrar, aðrir forráðamenn og aðrir áhugasamir – fjölmennið!!