Flott í ,,Tími til að lesa“

Flott framtak hjá nemendum og kennurum í Vallaskóla en nemendur á miðstigi hafa tekið þátt í verkefninu „Tími til að lesa“.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypti þessu verkefni af stokkunum 1. apríl sl. og vísar til þess að margir hafa nú meiri tíma til þess að lesa í því ástandi sem ríkir vegna COVID-19.

Með verkefninu eru börn og fullorðnir hvattir til þess að nýta þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður til lesturs. Við megum ekki gleyma mikilvægi þess að lesa og ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri.

Árangur þeirra sem taka þátt í verkefninu er mældur í tíma sem nemendur skrá á vefsíðu verkefnisins timitiladlesa.is. Þar er einnig hægt að fylgjast með sameiginlegum lestri þjóðarinnar. Þess verður síðan freistað að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness, fyrsta heimsmet sinnar tegundar.

Hér fylgja myndir af nokkrum lestrarhestum í 5. bekk.