Dagur íslenskrar tungu

Setningu Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Vallaskóla á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.  Eldri borgarar komu í heimsókn og lásu upp fyrir nemendur í 1.-4. bekk og nemendur í 5. bekk fengu heimsókn frá Hallveigu Thorlacius rithöfundi. Enn fremur var Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk sett formlega.

Okkur finnst það eiga vel við að setja Stóru upplestrarkeppnina á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert og þess vegna var haldin smá athöfn í tilefni dagsins. Það eru allir nemendur í 7. bekk sem taka þátt í upphafi hennar, 60 nemendur talsins. Síðar verða valdir þrír fulltrúar skólans á lokakeppnina á svæði Vallaskóla sem haldin verður 29. mars 2017. Fengum við upplestur frá góðum gestum, þeim Hallveigu Thorlacius rithöfundi og Jóni Þórarni Þorsteinssyni nemanda í 8. LV. Hallveig er höfundur sem mörg börn og unglingar þekkja en hún hefur m.a. skrifað bækurnar Martröð, Augað og Svörtu pödduna. Jón Þórarinn var einn sigurvegara upplestrarkeppninnar frá því í fyrra. Allir 7. bekkingar voru kallaðir upp á svið og hver og einn fékk sérstaka lestrardagbók að gjöf frá Vallaskóla í von um að þeir lesi sem mest og best næstu mánuðina. Í lokin las Guðbjartur Ólason upp ljóð og setti upplestrarkeppnina formlega. Nemendur í 6. bekk voru heiðursgestir. Að auki viljum við tiltaka fólkið sem heldur utan um undirbúninginn fyrir keppnina að einu eða öðru leyti. Það eru auðvitað umsjónarkennarar í 7. bekk, þær Helena Steinþórsdóttir, Hildur Bjargmundsdóttir og Kristrún Helga Marinósdóttir. 

Þó talað sé um keppni í upplestri þá felst hún fyrst og fremst í því að nemendur eru að keppa við sjálfa sig, að verða betri í lestri og tjáningu. Það er færni sem eykur sjálfstraust og færni til framtíðar. Þess vegna er svo mikilvægt að allir taki þátt og hafi gaman að.

Ýmsilegt annað er auðvitað gert í tilefni dagsins. Eitt af því er vísnakeppni grunnskólanema, Vísubotn 2016. Þetta er sjötta árið í röð sem keppnin er haldin, nú í samstarfi við KrakkaRÚV. Hægt er að nálgast upplýsingar um keppnina á vef mennta- og menningamálaráðuneytisins mms.is.

Saga dags íslenskrar tungu?

Haustið 1995 ákvað ríkisstjórn Íslands að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. 

15086385_10209054090723975_1168699610_n
Mynd: Vallaskóli (ÁRS). Lesið upp fyrir nemendur í 1.-4. bekk.
ap-2016-2017-arg-2004-dagur-islenskrar-tungu-2
Mynd: Vallaskóli. Bókatré á skólabókasafninu (ÞHG).
ap-2016-2017-arg-2004-dagur-islenskrar-tungu-11
Mynd: Vallaskóli (KHM). Hallveig Thorlacius ávarpar nemendur í 6. og 7. bekk.
ap-2016-2017-arg-2004-dagur-islenskrar-tungu-9
Mynd: Vallaskóli (ÞHG). Linda Björg á bókasafninu sér um að auglýsa þá viðburði sem eru í gangi hverju sinni. Hér má sjá kynningu hennar á degi íslenskrar tungu.
ap-2016-2017-arg-2004-dagur-islenskrar-tungu-14
Mynd: Vallaskóli (KHM). Nemendur í 7. bekk fá lestrardagbók að gjöf.
ap-2016-2017-arg-2004-dagur-islenskrar-tungu-16
Mynd: Vallaskóli (KHM). Guðbjartur Ólason skólastjóri ávarpar nemendur.