Vallaskóli er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli og á þessu starfsári verkefnisins, sem líkur 30. september, erum við að vinna með mataræði og tannheilsu. 1. október nk. hefst nýtt starfsár og þá munum við vinna með hreyfingu og öryggi ásamt því að halda áfram með verkefni þessa árs.Grænmeti og ávextir daglega
Ráðlagt er að borða 5 skammta eða minnst 500 gr. af grænmeti, ávöxtum og safa á dag, þar af a.m.k. 200 gr. grænmeti og 200 gr. af ávöxtum. Einn skammtur getur verið einn meðalstór ávöxtur (þ,.e. 1 desilítir af soðnu grænmeti eða 2 desilítrar af salati) eða glas af hreinum ávaxtasafa. Börn að 10 ára aldri þurfa þó heldur minni skammta.
Margbreytileg hollusta
Rífleg neysla grænmetis og ávaxta virðist minnka líkur á mörgum langvinnum sjúkdómum, þar á meðal hjarta- og æðasjúkdómum, ýmsum tegundum krabbameina, sykursýki af gerð 2 og offitu.
Aukum neysluna
Samkvæmt rannsóknum borða íslensk börn líklega minnst allra barna í Evrópu af ávöxtum og grænmeti. Veruleg ástæða er því til að auka neysluna og hafa þar með jákvæð áhrif á heilsufar þjóðarinnar.
Aukin ávaxta- og grænmetisneysla auðveldar þyngdarstjórnun
Rífleg neysla á trefjaríkum fæðutegundum á borð við grænmeti og ávexti getur líka verið liður í baráttu gegn offitu og stuðlað að eðlilegri líkamsþyngd þar sem þær veita mettunartilfinningu og fyllingu en tiltölulega litla orku. Sætir ávextir eru einnig góður kostur í stað sætmetis með viðbættum sykri.
Veljum sem flestar tegundir og matreiðsluaðferðir
Fjölbreytni fæst með því að velja bæði gróft og trefjaríkt grænmeti, svo sem spergilkál, hvítkál, blómkál, gulrætur, rófur, rauðrófur, lauk og baunir, en einnig fínni, vatnsmeiri tegundir, eins og tómata, agúrkur, salat og papríku. Fjölbreytni verður svo enn meiri ef grænmeti er borðað bæði ferskt og matreitt. Þar sem ávaxtasafar eru tiltölulega orkuríkir er ekki rúm fyrir meira en eitt glas af safa í skömmtunum fimm. Hins vegar er óhætt að borða ávexti og grænmeti umfram 500 gr.
Kartöflur eiga annan stað á diskinum
Kartöflur eru ekki flokkaðar sem grænmeti þar sem þær eru tiltölulega orkuríkar miðað við flest grænmeti og veita aðeins lítið magn af trefjum. Kartöflur eru flokkaðar sem kornmeti enda er næringargildið og framreiðslan líkari því sem gerist í kornflokknum. Kartöflur og grænmeti eiga því sitt hvort plássið á matardisknum.
Vallaskóli – heilsueflandi skóli!
Fleiri pistlar undir ,,Heilsueflandi grunnskóli“ hér hægra megin á síðunni undir ,,Forvarnir – ráðgjöf“.