Baráttudagur gegn einelti – Grænn dagur í Vallaskóla

8. nóvember er tileinkaður baráttu gegn einelti.

 

Börnin okkar eiga rétt á því að líða vel í skóla. Jákvæður skólabragur skiptir sköpum fyrir líðan og starfsgleði nemenda og starfsfólks og getur haft sömu áhrif og besta forvarnarstarf. Til þess að svo megi vera þurfum við öll að leggja okkur fram og leggja áherslu á virðingu, samkennd, jákvæð samskipti og skilning.

Aðalnámskrá grunnskóla og þemahefti um heilbrigði og velferð fjalla um andlega, líkamlega og félagslega þætti sem stuðlað geta að vellíðan nemenda. Hugum að þessum þáttum og leggjum okkar af mörkum til þess að í skólanum sé jákvæður bragur hafður að leiðarljósi og einelti og slæm samskipti þrífist ekki.

Einelti er ekki einstaklingsbundinn vandi þeirra barna sem fyrir því verða, það er mein sem fullorðnir þurfa að axla ábyrgð á að uppræta. Hafa ber í huga á þessum tímum rafrænna samskipta að einelti í skóla eltir barnið utan skóla. Verum meðvituð um að kenna börnum að umgangast snjalltæki. Foreldrar/forráðamenn mættu einnig vera meðvitaðir um að á vissu aldursskeiði þarf að skýra út fyrir börnum ýmiss konar fréttaflutning. Tölum vel um annað fólk, verum fyrirmyndir. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Fengið af síðu Menntamálastofnunar