Áhugaverður fyrirlestur um einhverfu og skipulagða kennslu

Svanhildur Svavarsdóttir, talmeinafræðingur, sérkennari og boðskiptafræðingur, var með afar áhugaverðan fyrirlestur um einhverfu og skipulagða kennslu í Sunnulækjarskóla miðvikudaginn 21. október 2015. Í fyrirlestrinum lagði hún m.a. áherslu á mikilvægi þess að nota sjónrænt skipulag í öllum aðstæðum.

Svanhildur er einn fremsti sérfræðingur okkar á þessu sviði, hún býr í Arizona en starfar víða í Bandaríkjunum. Þar sinnir hún kennslu, ráðgjöf og uppbyggingu sérdeilda fyrir einhverfa sem og starfsráðgjöf fyrir fatlað fólk á öllum aldri. Svanhildur kom við hér á landi á leið sinni til Arizona frá Rúmeníu. Þar var hún að veita ráðgjöf á sérsviði sínu en hún fer um allan heim til að halda fyrirlestra og veita kennsluráðgjöf enda hafsjór af fróðleik um einhverfu.

Fyrirlesturinn, sem var í boði skólaþjónustu Árborgar, var öllum opinn og hátt í 170 manns mættu til leiks, flestir frá Árborg og nágrannasveitarfélögum en einnig af höfuðborgarsvæðinu. Eftir áhugavert og líflegt erindi Svanhildar, sem var bæði í máli og myndum, var öllum boðið í kaffi og kleinur. Hún lauk svo heimsókn sinni með því að heimsækja Setrið (sérdeild Suðurlands) þar sem hún átti gott spjall við skólastjórnendur og starfsfólk deildarinnar.