„Á grænni grein“ – þemadagar í Vallaskóla

Þemadagar hjá yngsta- og miðstigi Vallaskóla stóðu yfir dagana 27. febrúar-1. mars.

Yfirþemað í ár var „Á grænni grein“ og vísar í umsóknarferli skólans um að verða grunnskóli á Grænni grein og fá að flagga grænfána Landverndar.

Markmiðið að þessu sinni var að vinna með umhverfismennt og endurnýtingu ásamt því að tengja hugtakið Á grænni grein við vellíðan, hreyfingu og góð samskipti og samvinnu. Stöðvarnar voru margar og fjölbreyttar og voru starfsmenn sammála um að þetta hafi heppnast vel.

Á yngsta stigi var unnið með sköpun úr endurnýtanlegu efni á nokkrum stöðvum. Börnin bjuggu til hljóðfæri og fengu jafnframt að spila á þau og skapa tónlist. Í heimilisfræði unnu þau með fá hráefni og fengu m.a. fræðslu um matarsóun og fleira. Þau fóru í jóga og hugarfrelsi, bjuggu til gjafapoka, kort og umslög úr gömlum blöðum svo eitthvað sé nefnt.

Á miðstigi var líka unnið með endurnýtanlegan efnivið. Börnin bjuggu til mósaík-listaverk, vefuðu úr gömlum textílefnum, fóru í Zúmba og hreyfingu, bjuggu til veggspjöld með fræðslu um umhverfismennt og jörðina okkar, endurnýttu gamla boli og breyttu þeim í innkaupapoka og sitthvað fleira.

Jafnframt fóru nemendur af báðum stigum út í hreyfingu og leiki. Yngsta stigið fór í göngutúr um nærumhverfið og í leiki og miðstigið var með útiratleik. Við þökkum foreldrum kærlega fyrir innlitið á föstudaginn. Það var gaman að sjá hvað margir komu í heimsókn. Við hvetjum ykkur til að aðstoða okkur við innleiðingu Grænfánans. Hjálpumst að, flokkum, endurnýtum og hugsum vel um jörðina okkar.