Starfskynningar í 10. bekk

Miðvikudaginn 19. nóvember fengu nemendur í 10. bekk frí frá hefðbundnu skólastarfi til að sækja starfskynningar. Starfskynningar hafa lengi verið eitt eftirminnilegasta verkefni grunnskólans, þar sem nemendur fá tækifæri til að kynnast fjölbreyttum störfum á vettvangi. Þó að ýmsar upplýsingar er hægt að nálgast á netinu kemur ekkert í staðinn fyrir samveru og samtal við fólk í störfum sem vekja áhuga nemenda okkar.

Nemendur höfðu sjálf samband við fyrirtæki og stofnanir sem þau höfðu áhuga á að heimsækja. Staðirnir sem tóku á móti þeim voru fjölbreyttir, allt frá opinberum störfum, til einkafyrirtækja, iðngreina og listgreina. Krakkarnir fengu tækifæri til að spreyta sig sjálf eða spyrja út í helstu verkefni. Þau fengu svör við spurningum á borð við: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í vinnunni? Hvað kom þér á óvart þegar þú byrjaðir að vinna við þetta? Og hvað finnst þér erfiðast? Allt spurningar sem erfitt er að Google-a og fá tækifæri eru til þess að spyrja.

Við í Vallaskóla viljum þakka öllum fyrirtækjum og stofnunum sem tóku á móti nemendum okkar. Þessi reynsla og upplifun skilar sér margfalt til baka og er ómetanlegur hluti af starfsfræðslu grunnskólans.

Kveðja frá náms- og starfsráðgjöfum í Vallaskóla