Föstudaginn 21. maí fór 8. bekkur í Vallaskóla ásamt umsjónarkennurum í ferð á Sólheimajökul.
Hópurinn skiptist í tvær rútur sem óku í austur, rútuferðin tók um klukkutíma og tuttugu mínútur. Nemendur sungu, sögðu brandara og skemmtu sér vel. Þegar á áfangastað var komið fengu flestir sér nesti og báru á sig sólarvörn en dagurinn var afar fallegur og sólríkur. Svo var komið að því að græja sig en allir fengu klifurbelti, ísexi, hjálm og brodda.
Þegar allir voru tilbúnir var haldið af stað en ganga þurfti smá spöl að jöklinum sjálfum. Leiðsögumennirnir fóru yfir helstu atriði og síðan var haldið á jökulinn. Ganga þurfti upp snjóbrekku og niður klaka/snjótröppur, svo tók jökulbreiðan við. Nokkrir nemendur fóru langt út fyrir þægindarammann sinn með því að sigra snjótröppurnar. Margir prófuðu ísexina sína og fundu ísjökulkalt vatn sem þeir smökkuðu og einhverjir fylltu á brúsana sína. Eftir að hafa tekið margar myndir var haldið til baka.
Allur hópurinn fékk svo pylsuveislu fyrir rútuferðina heim. Ferðin öll tókst með eindæmum vel, nemendur og kennarar voru ánægðir með þessa skemmtilegu ferð. Nemendur eiga stórt hrós skilið fyrir að vera sér og skólanum til sóma.
Umsjónarkennarar 8. bekkjar