14. mars 2013 Kornvörur

Kæru foreldrar/forráðamenn

Hér koma nokkrir punktar um mikilvægi þess að velja grófar kornvörur frekar enn fínunnar vörur og eitt heilsubrauð fylgir með.

Heilkornavörur eru næringarríkar

Kornvörur, sérstaklega vörur úr heilu korni, eru næringarríkur matur. Í þeim eru fjöldi næringarefna sem eru mikilvæg fyrir heilsuna, t.d. trefjar, ýmis B-vítamín, E-vítamín og steinefni auk annarra hollefna. Rannsóknir renna undir það stoðum að neysla á grófu kornmeti dragi úr líkunum á hjarta- og æðasjúkdómum, skertu insúlínnæmi og sykursýki af gerð 2, háþrýstingi og sumum tegundum krabbameina. Trefjaríkur matur, svo sem heilkornavörur, skiptir einnig miklu máli til að meltingin sé góð. Trefjaríkar vörur geta líka hjálpað til við að halda þyngdinni innan eðlilegra marka þar sem þær veita mettunartilfinningu og fyllingu. Æskilegt er að fæðutrefjar séu að minnsta kosti 25 grömm á dag miðað við 2400 kílókaloría fæði. 

Æskilegt er að auka hlut grófs kornmetis

Aukin neysla grófra brauða og annars grófs kornmatar er talin æskileg með hollustusjónarmið í huga. Neysla allra kornvara hefur reyndar aukist nokkuð síðasta áratug og brauðneysla er nú sambærileg að magninu til og hjá mörgum nágrannaþjóðum okkur. Mjög gróf brauð (meira en 6 grömm trefja í 100 grömmum brauðsneið), eins og rúgbrauð, maltbrauð og fleiri tegundir, sem eru dagleg neysluvara í flestum nágrannalöndum, eru þó sjaldséð á borðum Íslendinga. Hér á landi eru hvers konar kökur og kex í staðinn mun algengari en á hinum Norðurlöndunum. Önnur sérstaða okkar Íslendinga felst í því hversu mikið af brauðinu er í formi pítsu og sambærilegra rétta. Því er mikilvægt að leggja áherslu á að velja gróf brauð í stað sætabrauðs og fínna brauða.

Fjölbreytt úrval kornvara – kartöflur líka

Þegar kemur að því að velja kornvörur er gott að huga að fjölbreytninni. Æskilegt er að velja oftar heilkornavörur heldur en fínunnar vörur því þá eru trefjar og önnur hollefni enn til staðar. Þannig er t.d. hollustugildi hýðishrísgrjóna (brúnna hrísgrjóna) og heilhveitipasta meira en hvítra hrísgrjóna og hefðbundins pasta. Þar sem kartöflur er ríkar af auðmeltum kolvetnum eru þær flokkaðar með kornmeti en ekki grænmeti.

(Fengið af vefsíðu landlæknisembættis úr bæklingnum Ráðleggingar um mataræði og næringarefni)

 

Megið þið eiga góðan dag!

Ásdís Björg og Gummi Sigmars

F.h. Stýrirhóps Heilsueflandi skóla í Vallaskóla

Vallaskóli – Heilsueflandi skóli