112-dagurinn verður haldinn um allt land 11. febrúar næstkomandi eins og undanfarin ár.
Samstarfsaðilar dagsins eru Neyðarlínan, lögreglan, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barna- og fjölskyldustofu, Landlæknisembættið, Landspítalinn, Heilsugæslan, Vegagerðin, Æskulýðsvettvangurinn og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Áhersla dagsins í ár er á ofbeldi og viðbrögð við því og jafnframt að miðla fræðslu um rétt samskipti við neyðarverði 112, enda eru neyðarverðir þeir fyrstu sem samband fæst við þegar hringt er í 112 og þar með mjög mikilvægir hlekkir í viðbragðskeðjunni.
Myndband sem er ætlað til þess að auka skilning fólks á því hvaða viðbrögð eru hin réttu í samskiptum við neyðarverði verður frumsýnt í tilefni dagsins. Auk þess verður stuðlað að víðtækri umfjöllun um efnið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Stefnt er að því að efna til stuttrar athafnar þar sem veitt verða verðlaun í Eldvarnagetraun Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og tilkynnt hver skyndihjálparmaður Rauða krossins er þetta árið.